Landsbankinn annast hefðbundna útlána- og innlánastarfsemi en sinnir einnig markaðsviðskiptum, sjóðastýringu í dótturfélaginu Landsbréfum, fyrirtækjaráðgjöf, einkabankaþjónustu og eignastýringu. Höfuðstöðvar Landsbankans eru við Austurstræti 11 í Reykjavík og nærliggjandi húsum en þær hafa verið á því svæði frá upphafi. Árið 2017 tók bankaráð Landsbankans ákvörðun um að byggja húsnæði fyrir starfsemi bankans að Austurbakka 2 við Austurhöfn í Reykjavík. Landsbankinn rekur enga starfsemi utan Íslands.
Í árslok 2019 átti ríkissjóður Íslands 98,2% eignarhlut í Landsbankanum. Landsbankinn átti sjálfur 1,56% hlut. Aðrir hluthafar, sem eru núverandi og fyrrverandi starfsfólk Landsbankans og fyrrum stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands (aðrir en íslenska ríkið), áttu 0,24%.
Markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði mældist 37,2% á árinu 2019 í könnunum Gallup. Landsbankinn hefur verið með hæstu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði sex ár í röð. Kannanir Gallup sýna að á sama tíma hefur traust til bankans og ánægja með þjónustuna aukist jafnt og þétt.
Hjá Landsbankanum, ásamt dótturfélögum, störfuðu 943 manns í 893 stöðugildum í árslok 2019. Þar af eru 60% konur og 40% karlar. Kynjahlutföllin eru óbreytt á milli ára.
Allt starfsfólk bankans í bankastörfum eru meðlimir Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og falla undir kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins (SA) og Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF).
| Um Landsbankann | 31.12.2018 | 31.12.2019 | Breyting | |
|---|---|---|---|---|
| Einstaklingar í viðskiptum við Landsbankann | 126.746 | 129.943 | 2,5% | |
| Fyrirtæki í viðskiptum við Landsbankann | 13.670 | 14.584 | 6,7% | |
| Útibú og afgreiðslur | 37 | 37 | 0% | |
| Stöðugildi | 919 | 893 | -2,8% | |
| Helstu kennitölur (ma.kr.) | 31.12.2017 | 31.12.2018 | 31.12.2019 | |
|---|---|---|---|---|
| Hreinar rekstrartekjur | 53.512 | 53.910 | 51.517 | |
| Hagnaður eftir skatta | 19.766 | 19.260 | 18.235 | |
| Arðsemi eiginfjár eftir skatta | 8,2% | 8,2% | 7,5% | |
| Eiginfjárhlutfall | 26,7% | 24,9% | 25,8% | |
| Vaxtamunur eigna og skulda | 2,5% | 2,7% | 2,4% | |
| Kostnaðarhlutfall | 46,1% | 45,5% | 42,6% | |
| Heildareignir | 1.192.870 | 1.326.041 | 1.426.328 | |
| Útlán sem hlutfall af innlánum viðskiptavina | 153,0% | 153,6% | 161,1% | |
| Fjöldi starfsmanna eftir ráðningarformi | Fastráðning | Lausráðning | Tímabundin ráðning | Samtals | 
|---|---|---|---|---|
| Karl | 366 | 3 | 11 | 380 | 
| Kona | 525 | 15 | 23 | 563 | 
| Samtals | 891 | 18 | 34 | 943 | 
Góðir stjórnarhættir Landsbankans leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsfólks og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans. Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti og gerðar eru reglulegar úttektir á því hvort stjórnarhættir bankans á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.
Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti tilkynnti í apríl 2019 að hún hefði endurnýjað viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Það eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands sem standa að viðurkenningunni. Viðurkenningin byggir á úttekt Deloitte ehf. á stjórnarháttum bankans.