Álitamál

Þekking fyrirtækja og almennings á því hvað felst í samfélagslegri ábyrgð vex stöðugt og reglulega koma upp álitamál sem þarf að taka afstöðu til.

Í samfélagsskýrslum Landsbankans undanfarin ár hefur m.a. verið fjallað um þróun útibúa, kynferðislega áreitni á vinnustað, sölu bankans á fyrirtækjum, keðjuábyrgð fyrirtækja, vaxtamun og verðlagningu. Einnig hefur verið fjallað um breytingar í umhverfi bankastarfsemi eins og nýja tilskipun um greiðsluþjónustu og persónuverndarlöggjöf, áskoranir í mannauðsmálum, netöryggi og auknar kröfur fjárfesta um samfélagsábyrgð.

Að þessu sinni verður fjallað um tvö málefni: annarsvegar hvað bankar geti gert til að vera samfélagslega ábyrgir og hinsvegar umhverfisvottun nýs húsnæðis Landsbankans.


Er hægt að meta samfélagsábyrgð banka?

Undanfarin ár hefur umræðan um samfélagsábyrgð orðið meira áberandi í samfélaginu og þrýstingur á fyrirtæki um að sinna þessum málaflokk hefur aukist samhliða. Bankar eru þar ekki undanskildir og hafa kröfur um að þeir sinni samfélagsábyrgð aukist, bæði frá almenningi og fjárfestum.

Helstu áskoranir sem bankar standa frammi fyrir við innleiðingu samfélagsábyrgðar í rekstur sinn er að afmarka hvar þeir ætla að beita sér til að ná sem bestum árangri í UFS þáttum (UFS; umhverfis- og félagslegir þættir og stjórnarhættir) í gegnum sína kjarnastarfsemi. Einnig er áskorun fyrir fyrirtæki að temja sér að hugsa til lengri tíma. Nauðsynlegt er að innleiða langtímahugsun í verklag fyrirtækja til að ná sem bestum árangri fyrir umhverfi, samfélag og reksturinn sjálfan.

Áskoranir við að mæla áhrif bankastarfsemi í gegnum lána- og eignasöfn

Þar til nýlega þóttu bankar hafa lítið umhverfisfótspor enda væri starfsemi þeirra þess eðlis að lítil kolefnislosun ætti sér stað. En eftir því sem viðmiðin hafa þróast og UFS-kröfur slípast til er nú viðurkennt að bankar hafa heilmikil áhrif á umhverfið og kolefnislosun í gegnum lána- og eignasöfn sín. Bankar þurfa að leggja sitt af mörkum til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um minni kolefnislosun og tækifærin til þess liggja ekki í beinum rekstri heldur í loftlagsáhrifum þeirra verkefna sem þeir kjósa að lána til eða fjárfesta í. Þessi óbeinu kolefnislosun er mjög erfitt að mæla og halda utan um.

PCAF (e. Partnership for Carbon Accounting Financials) vinnur nú að því að búa til loftlagsmæli sem er sérsniðinn að fjármálafyrirtækjum og er ætlað að gera þeim kleift að mæla og greina frá kolefnislosun í lána- og eignasöfnum. Landsbankinn tekur þátt í þróun mælisins og lesa má nánar um verkefnið hér. Verkefnið á rætur sínar að rekja til Hollands og hafa PCAF-mælar þegar verið hannaðir fyrir þarlend fjármálafyrirtæki og fyrir banka í Norður-Ameríku. PCAF-hugmyndafræðin byggir aðallega á GHG Protocol og reynir að aðlaga þá aðferðarfræði að lána- og eignasöfnum banka.

Bankar geta farið fleiri leiðir til að mæla áhrif lána- og eignasafna sinna en hver banki verður að ákveða hvaða aðferðarfærði hentar starfseminni best. Engu að síður er mikilvægt að taka tillit til þess hvaða staðla og aðferðir aðrir bankar og fjármálafyrirtæki nota því fjárfestar þurfa að geta skoðað samanburðarhæfar upplýsingar á milli fjármálafyrirtækja.

Auk umhverfisþátta þurfa bankar einnig að huga vel að félagslegum þáttum og stjórnarháttum þegar kemur að áhrifum starfseminnar í gegnum lán og fjárfestingar. Það fer vaxandi að slíkt sé gert í gegnum regnbogafjármögnun þar sem fjármagni er beint sérstaklega í umhverfisvæn og félagsleg verkefni. Vísbendingar eru um að fjárfestar séu reiðubúnir til þess að koma að fjármögnun umhverfisvænni verkefna á betri kjörum en veitt eru til annarra verkefna. Til þess að geta sinnt regnbogafjármögnun vel þarf samfélagsábyrgð að vera orðin hluti af kjarnastarfsemi banka og daglegum ákvörðunum. Enda er það lykilatriði fyrir banka, eins og önnur fyrirtæki, að hámarka áhrif sín með því að innleiða samfélagsábyrgð í kjarnastarfsemina.

Til þess að almenningur viti hvað bankar eru að gera og hverjar áherslur þeirra í samfélagsábyrgð eru er mikilvægt að sinna árlegri skýrslugjöf og gefa út ítarlegar upplýsingar um ófjárhagslega þætti starfseminnar, svokallaðar lykilupplýsingar.

Góð upplýsingagjöf byggir upp traust

Mikilvægt er að fjalla um áhrif starfseminnar á umhverfi og samfélag á hverju ári og birta samanburðarhæfar mælingar til að rekja megi árangur á milli ára. Markmið skýrslugjafar um samfélagsábyrgð er að skapa gagnsæi og byggja upp traust.

Nýta má ýmis viðmið til að tryggja sambærileika skýrslugjafar ár frá ári, en þar ber helst að nefna Global Reporting Initiative viðmiðin og Nasdaq UFS viðmiðin sem hafa verið þýdd á íslensku. Bæði GRI og Nasdaq UFS viðmiðin búa yfir tilvísunartöflu sem er samanburðarhæf á milli skýrslna í þeim tilgangi að auðvelda samanburð á upplýsingagjöf fyrirtækja.

Úttekt þriðja aðila og alþjóðlegar skuldbindingar draga úr „grænþvotti“

Grunsemdir um svokallaðan „grænþvott“ hafa iðullega loðið við umræðu um samfélagsábyrgð fyrirtækja en þar er átt við þegar fyrirtæki vilja njóta ágóðans sem fylgir samfélagsábyrgð án þess að leggja á sig raunverulega vinnu við innleiðingu og uppbyggingu hennar innan fyrirtækisins. Bæði GRI og Nasdaq UFS viðmiðin gera kröfu um að skýrslur séu teknar út af þriðja aðila til að tryggja gæði upplýsinga. Fjárfestar gera einnig í auknum mæli kröfu um úttekt óháðs greiningaraðila á öllum rekstri banka til þess að ákvarða áhættu þeirra gagnvart UFS-þáttum. Greiningaraðilar sem sinna slíkri úttekt eru m.a. Sustainalytics, ISS, S&P Global, MSCI og fleiri. Ávinningurinn af því að fá UFS-áhættumat á reksturinn er sá að góð einkunn veitir greiðari aðgang að ódýrara fjármagni.

Eftir því sem áhuginn á samfélagsábyrgð eykst og krafan um að sinna henni verður ríkari fjölgar sértækum leiðum til þess að innleiða og fylgjast með UFS-þáttum innan banka. Hér má til dæmis nefna PRI, eða ábyrgar fjárfestingar, og nú PRB, eða Viðmið um ábyrga bankastarfsemi, en þessi verkefni eru bæði á vegum UNEP FI (United Nations Environment Programme – Finance Inititaive). PRI er nokkurra ára gamalt en nýlega var ákveðið að vísa fyrirtækjum sem sýna enga framvindu í sinni UFS-vinnu á milli skýrslna burt úr verkefninu. Viðmið um ábyrga bankastarfsemi voru sett af stað haustið 2019 til þess að hjálpa bönkum að innleiða Parísarsamkomulagið og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í rekstur sinn. Þátttakendur í verkefninu þurfa að setja sér sértæk, mælanleg og tímasett markmið út frá Parísarsamkomulaginu og heimsmarkmiðunum og greina frá framvindu sinni í árlegri skýrslu. Bankar sem sinna ekki þessari skyldu fá ekki að vera þátttakendur áfram. Slík verkefni eru góður vettvangur til að læra af öðrum, tileinka sér það sem vel er gert og veita samanburð á milli banka. Með þátttöku í þessum verkefnum sýna bankar fram á langtímaskuldbindingu í þágu samfélagsábyrgðar.

Langtímahugsun eitt mikilvægasta verkefnið

Fyrir almenning getur verið erfitt að halda utan um hvaða skuldbindingar og verkefni standa bönkum til boða og hvaða verkefnum er mikilvægt að bankar sinni í þágu sjálfbærni og UFS-þátta. Til þess að auðvelda almenningi að fylgjast með þróun þessara mála er sem fyrr segir mikilvægt fyrir banka að birta árlegar samfélagsskýrslur opinberlega svo rekja megi þróun UFS-mála og gera samanburð á milli ára. Ein helsta áskorun banka í samfélagsábyrgð felst þó enn í að þeir starfa í umhverfi þar sem einblínt er á ársfjórðungslegan árangur í stað árangurs til lengri tíma. Því er ein mikilvægasta UFS-tengda áskorun banka að innleiða langtímahugsun í verklag sitt til þess að ná sem bestum árangri fyrir umhverfi, samfélag og rekstrargrundvöll bankanna sjálfra til framtíðar.

Umhverfisvottun húsnæðis Landsbankans við Austurbakka

Áskoranir í loftslagsmálum eru miklar og aðkallandi. Umhverfisáhrif vegna byggingarframkvæmda eru umtalsverð en byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir allt að 40% af orkutengdri losun koltvísýrings og 36% af endanlegri orkunotkun heimsins. Auk þess er byggingarúrgangur að jafnaði stærsti úrgangsflokkur landa. Sjálfbær þróun í byggingariðnaðinum er því ein af stóru áskorunum samtímans.

Landsbankinn byggir nú fjölbreytt atvinnu- og verslunarhúsnæði við Austurbakka í miðborg Reykjavíkur. Nýbyggingin verður vottuð samkvæmt alþjóðlega BREEAM-umhverfisvottunarstaðlinum. BREEAM er eitt útbreiddasta byggingarvottunarkerfi heims og það vistvottunarkerfi sem mest hefur verið notað hér á landi en á þriðja tug verkefna hérlendis hafa fengið BREEAM-vottun eða eru í vottunarferli. Stefnt er að framúrskarandi (e. excellent) einkunn á hönnun og framkvæmd nýbyggingar bankans en verkefni hérlendis hafa ekki fengið hærri einkunn.

Umhverfisvottun nýbyggingar Landsbankans styður við og fellur vel að samfélagslegri ábyrgð bankans og er rökrétt framhald af því sem bankinn hefst nú þegar að í þessum efnum. Stöðugt er unnið að umbótum í rekstri og skipa umhverfismálin þar stóran sess.

Af hverju vistvænar byggingar?

Það er skynsamlegt að fjárfesta í heilnæmum og hagkvæmum byggingum sem krefjast minni orkunotkunar, minna viðhalds, hafa lengri endingartíma og nota minna magn skaðlegra efna. Heilsa og vellíðan notenda skiptir einnig miklu máli, hvort sem um er að ræða atvinnu- eða íbúðarhúsnæði, og því ber að leggja áherslu á þætti sem stuðla að góðri innivist og heilsusamlegu umhverfi.

Með vistvænni hönnun er markvisst unnið að því að auka gæði og lágmarka neikvæð áhrif. Möguleikinn á að auka virði á mismunandi skeiðum í vistferli byggingar er mestur á undirbúnings- og hönnunarstiginu því þá eru stefnumarkandi ákvarðanir teknar. Við hönnun vistvænna bygginga er horft til alls vistferlisins, frá auðlindanýtingu og framleiðslu byggingarefni, til framkvæmdar, reksturs og loks niðurrifs, með tilheyrandi meðhöndlun úrgangs.

Vistvæn bygging grundvallast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þar sem leitast er við að mæta þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til þess sama. Vistvæn bygging grundvallast á umhverfisvænum aðferðum, nýtir auðlindir á hagkvæman hátt og dregur úr neikvæðum umhverfisáhrifum í gegnum allan vistferil byggingarinnar.

Með umhverfisvottun bygginga er markmiðið að auka gæði, draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum við mannvirkjagerð, framleiða heilnæm og örugg mannvirki og draga úr heildarkostnaði bygginga á líftíma þeirra. Þannig eru hvatar þess að byggja vistvænt í senn umhverfislegir, fjárhagslegir og heilsufarslegir.


Hverju skilar vottun umfram umhverfisáherslur?

Er ekki nóg að fylgja umhverfisáherslum í verkefnum án þess að því þurfi að fylgja formleg vistvæn vottun? Vissulega er hægt að byggja vistvænar byggingar án þess fara í gegnum viðurkennda vottun. Reynslan sýnir hins vegar að án þess aðhalds sem vottunarkerfi veita er hætta á því að það slakni á kröfunum. Farið er af stað með góðum ásetningi en oft er slakað á kröfunum í ferlinu og að endingu er kannski lítið orðið eftir af þeim þáttum sem áttu að skila sér með vistvænni byggingu. Þess vegna er raunverulegt virði í því að fá viðurkenndan umhverfisstimpil.

Virðið getur verið fjárhagslegt og falist í hagkvæmari fjármögnun verkefnisins. Virðið getur einnig verið markaðslegs eðlis, því með vistvottun geta fyrirtæki sýnt umhverfislega og samfélagslega ábyrgð í verki.

Ennfremur er eftirspurn eftir „grænni leigu“ og sjálfbærari byggingum í alþjóðasamfélaginu. Meðvitund um umhverfismál eykst sífellt og æ fleiri fyrirtæki, stofnanir og einkaaðilar leggja áherslu á umhverfismál og samfélagslega ábyrgð. Notkun viðurkennds vistvottunarkerfis er árangursrík og viðurkennd leið til þess að ná umhverfismarkmiðum og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Miklar skrásetningar fylgja vistvænni vottun. Mikilvægt er að greina og meta verkefni og stærð þeirra og velja vottunarkerfi sem hentar hverju verkefni fyrir sig. Stór umhverfisvottunarkerfi henta t.d. síður verkefnum sem eru lítil að umfangi, a.m.k. í núverandi formi.

Umhverfislegur hvati Fjárhagslegur hvati Heilsufarslegur hvati
Minni orkunotkun Hagkvæm fjármögnun Betri innivist
Minni notkun skaðlegra efna Lægri rekstrarkostnaður Heilnæmari og öruggari bygging
Minni úrgangur Fjárfesting heldur verðgildi sínu Notendur geta stýrt umhverfinu

Kostnaður við vistvottun - borgar þetta sig?

Lítið er um haldbærar upplýsingar um umfang og eðli íslensks byggingarmarkaðar og skortir á aðgengilegar mælingar og rannsóknir er varða kostnað við vistvæna vottun. Upplýsingar um orkunotkun bygginga eru einnig af skornum skammti hérlendis. Reynt hefur verið að meta kostnað vegna vistvænnar vottunar bygginga. Kostnaðurinn felst annars vegar í beinum kostnaði eins og skráningarkostnaði og kostnaði við utanumhald og vinnu hönnunarteymis, verktaka og eiganda byggingar, og hins vegar í viðbótarkostnaði verklegra framkvæmda vegna t.d. efnis- og tækjavals. Kostnaðarauki stofnkostnaðar vegna vistvænnar vottunar hefur verið áætlaður um 2-3% af byggingarkostnaði en væntingar standa til þess að aukalegur kostnaður skili sér í betri rekstri á líftíma bygginga.

Ávinningur

Meðvitund um umhverfismál hefur aukist mikið undanfarin ár en gerðar eru ríkari kröfur en áður um umhverfisvitund og ábyrgar fjárfestingar. Í byggingariðnaði hefur einnig orðið mikil viðhorfsbreyting, enda hafa stjórnvöld sett auknar skyldur á hönnuði, framkvæmdaaðila og verkkaupa.

Ætlaður ávinningur af vistvænni vottun bygginga felst m.a. í hagstæðari fjármögnun, lægri rekstrarkostnaði bygginga og í betri innivist. Þó ber að hafa í huga að vottun ein og sér tryggir ekki gæði en ferlið getur hinsvegar auðveldað markvissa vinnu. Vottunarkerfin stuðla að ögun, í hönnun, framkvæmd og rekstri og þannig eru kerfin tæki sem geta hjálpað fólki að rata rétta leið en þau koma aldrei í staðinn fyrir heilbrigða skynsemi og raunhæft mat á aðstæðum hverju sinni.

Það er leiðarljós Landsbankans að sífellt sé hugað að umhverfissjónarmiðum, félagslegum og efnahagslegum þáttum í starfseminni. Með vistvænni vottun nýbyggingar Landsbankans við Austurbakka sýnir bankinn ábyrgð í verki. Landsbankinn vill leggja sitt af mörkum, því umhverfismál koma okkur öllum við.