Hagsmunaaðilar skiptast í innri og ytri aðila. Innri aðilar eru viðskiptavinir, starfsfólk, hluthafar, birgjar og samfélag. Ytri aðilar eru stjórnvöld, eftirlitsstofnanir, fjölmiðlar, fjárfestar, hagsmunasamtök og þrýstihópar.
Landsbankinn hefur ekki gert sérstaka hagsmunaaðilagreiningu á forsendum samfélagsábyrgðar en nýtir þess í stað ýmsar aðferðir eins og opna fundi, ábendingakerfi, skoðanakannanir, rýnihópa og samtöl við starfsfólk og viðskiptavini. Í kaflanum um samstarf er fjallað um samstarf Landsbankans við ýmsa hagsmunaðila.
Landsbankinn hefur síðastliðin sex ár mælt viðhorf starfsfólks til samfélagsábyrgðar bankans með könnun þar sem spurt er um mikilvægi samfélagsábyrgðar fyrir starfsemi bankans. Í öll skiptin hefur samfélagsábyrgð verið talin mikilvæg. Töluverð hækkun var á milli árana 2017 og 2018 og fór þá úr 4,22 af 5 mögulegum í 4,35. Árið 2019 mældist mikilvægi samfélagsábyrgðar 4,34 af 5. Starfsfólk hefur einnig verið spurt um heildaránægju í starfi síðustu ár og mældist heildaránægja árið 2019 4,4 af 5 mögulegum, sem er það sama og árið áður.
Síðustu ár hafa EMC rannsóknir spurt almenning hvort fyrirtæki sem þau skipta við séu samfélagslega ábyrg. Spurningin var síðast borin fram í nóvember og desember 2019 og mældist 2,6 á kvarðanum 1-5. Hæsti bankinn mældist með einkunnina 2,8 á sama kvarða og sá lægsti 2,4. Í könnuninni voru um 89 stærstu fyrirtæki landsins mæld og var meðaltal þeirra allra 2,7, og meðaltal Landsbankans því svipað og hjá meðalfyrirtækinu.